Bjarni Hannesson ráðgjafi tekur sýni úr 13. braut.
Tekin voru jarðvegssýni úr brautum, flötum og teigum í lok mars og þau send til greiningar í Bandaríkjunum. Niðurstöður sýndu umtalsverðan skort á köfnunarefni (N), sem er aðalnæringarefni, en einnig á snefilefnum eins og brennisteini (S). Tekið var mið af þessu við val á áburði og ákvörðun um næringarmagn. Gjöf á brautum virðist lofa góðu en mikilvægt er að hún verði nákvæmari framvegis og markmið vel skilgreind.
Á komandi vertíð verður áhersla áfram á almenn grasgæði, nú aðallega á flötum, en átaks er augljóslega þörf á rúmlega helmingi þeirra. Á brautum verður áhersla á jafnari dreifingu næringar og á teigum verður fyllt oftar og meira í kylfuför.
Stærsta verkefni síðasta starfsárs var innleiðing sjálfvirkra, rafknúinna sláttuvéla, en undir lok síðasta sumars slógu vélarnar, öðru nafni róbotar eða þjarkar, allt gras á vellinum nema á flötum. Um leið voru eldri vélar teknar úr notkun og er þar með allur sláttur orðinn rafknúinn.
Áformað er að taka enn stærra skref í þá átt í vor. Þjarkarnir munu þá safna kröftum í hleðslustöðvum í eða við áformuð ný áningarhús, með kærkominni salernisaðstöðu, á tveimur miðlægum stöðum á vellinum.
Stöðvarnar munu nýta endurnýjanlega orku sem framleidd verður með sólþiljum á húsþökunum, en vart er hægt að hugsa sér hentugri iðju til að framkvæma með sólarorku, þar sem grasið vex varla nema birtu njóti við.
Þessir nýju starfskraftar koma frá sænska stórfyrirtækinu Husqvarna, gegnum íslenska umboðsaðilann MHG-verslun, sem á hrós skilið fyrir framúrskarandi þjónustu.
Fimm vélanna eru af stærstu gerð, sem nefnist CEORA 546. Þær slá um 48.000 fermetra á 48 klst., en auk þeirra njótum við krafta fjögurra minni þjarka, AM 580, sem geta slegið ofan í skarpari kverkum, í meiri halla o.s.frv., um 16.000 fermetra á 48 klst.
Róbotarnir spara okkur mikinn tíma, sérstaklega með tilliti til aukinnar sprettu á brautum, og gera okkur framvegis kleift að leggja meiri áherslu á ýmis afmörkuð verkefni víða um völlinn og aðra þjónustu við kylfinga úti á velli, sem við trúum að muni muni bæta upplifun fólks af svæðinu og gera golfið skemmtilegra. Til þess er leikurinn gerður.
Jákvætt svar barst frá Umhverfis- og skipulagsnefnd Ölfuss við erindi klúbbsins síðla árs, um heimild til stækkunar á sjálfu lendingarsvæðinu á æfingasvæði (driving range) okkar, en það er bæði svo stutt og mjótt að fjölmargir boltar fara út fyrir.
Þar þarf að handtína þá auk þess sem margir boltar tapast er þeir sökkva beint ofan í deigan jarðveg sem þarna er víða.
Hingað til hefur ekki verið vilji til að setja takmörk á lengd högga sem kylfingar slá á svæðinu og er því stefnt að því að stækka lendingarsvæðið með nýtingu umframjarðvegs frá nálægri, áformaðri gatna- og/eða mannvirkjagerð.
Einnig verður settur kortalesari á boltasjálfsalann og merkingum eða sérkennum svæðisins breytt.
Meðfylgjandi mynd sýnir vísi að einni mögulegri lausn af mörgum, en henni er ætlað að sýna endurnýtingu á timbri sem flutt var til landsins og notað var í landgræðsluátaki á sjötta áratug síðustu aldar, til að mynda mjóu, löngu og beinu sandhryggina sem sjá má á loftmyndum norðaustan vallarins.
Áformað er að reisa tvær áningarstöðvar með snyrtingu, ásamt fyrrnefndum hleðslustöðvum fyrir róbota. Staðsetningu þarf að ákveða með hliðsjón af notagildi fyrir kylfinga sem og sláttuvéla, en líklegt er að annað húsið verði við stíg milli flata á 3. og 14. braut og hitt við 8. og 12. teig. Kylfingar eiga tvisvar erindi á hvorn stað á 18-holu hring.
Þannig verða mest fjórar holur milli húsanna, að golfskálanum meðtöldum, sem gæti orðið aðgengilegri í hálfleik ef 9-holu lykkjum vallarins er víxlað. Til greina kemur að safna hraungrýti af svæðinu kringum 11. braut og fleirum, sem er óvinsælt og getur skapað hættu, og nýta það í hönnun húsanna. Meðfylgjandi myndir sýna aðeins dæmi um útlit, en þær eru gerðar með aðstoð gervigreindar.
4-5 manna starfslið mun hefja störf á ólíkum tíma á tímabilinu febrúar-apríl að báðum mánuðum meðtöldum. Umhverfi og innra byrði áhaldahúss verður endurskipulagt, hreinsunarátak gert og reglur settar um umgengni við svæðið, húsin og tæki framvegis. Hreinsistöð fyrir golfkerrur og skó verður komið fyrir við uppgöngu á vegarklæðingu bílastæðis.
Áhersla verður á almenn grasgæði, nú aðallega á flötum, en átaks er augljóslega þörf á rúmlega helmingi þeirra. Á brautum verður áhersla á jafnari dreifingu næringar og á teigum verður fyllt oftar og meira í kylfuför.
Stefnt er að því að kalla fram sterka og jákvæða breytingu í almennu yfirbragði vallarins með betri kantaslætti, m.a. kringum teiga og hvernig grasi vaxnar gönguleiðir og malarstígar mæta teigkrögum. Einhverjar hjáleiðir verða slegnar eða merktar með öðrum hætti á meðan skemmdir á grasi vöxnum gönguleiðum eru lagaðar.
Hugmyndir eru uppi um smíði á skápum fyrir sorp- eða flokkunartunnur, sem og á hirslum við teiga, fyrir flöskur með sand- og fræblöndu, sem kylfingar geta sjálfir notað til að fylla í kylfuför. Hugsanlega verða gerðar tilraunir til að smíða a.m.k. hluta af þessu, auk þrepa og ýmissa lausna á rofnum gönguleiðum upp brekkur, úr endurnýtta landgræðslutimbrinu.
Gerð hafa verið fyrstu drög að verkefnalista vallar. Hann er enn á frumstigi, en er birtur hér til upplýsingar. Áformað er að birta hann í einskonar samráðsgátt, þar sem hægt verður að senda inn ábendingar, á næstu vikum.