Um 3,5 milljóna króna afgangur var af rekstri golfklúbbsins 2025, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða. Án þeirra var rekstrarafkoman jákvæð sem nemur um 8 milljónum króna. Heildartekjur voru 104,7 milljónir króna og jukust þær um tæp 22% milli ára.
Metfjöldi hringja var leikinn árið 2025. Árlegum heimsóknum á Þorláksvöll, eða leiknum hringjum, fjölgaði um 47% milli ára. Einn hring á dag, allt árið, vantaði til að ná 50% aukningu. Leiknir hringir 2025 voru 25% fleiri en 2021, sem var gamla metárið.
Gerð var viðhorfskönnun meðal félaga GÞ í janúar 2026, til að gefa meðlimum færi á að tjá sig um starfið, ekki síst hvað megi betur fara og hvaða verkefni þeir telja brýnast að ráðast í framundan.
93,4% aðspurðra um viðhorf sitt til klúbbsins í heild sögðust ýmist mjög ánægðir eða frekar ánægðir.
Send voru lið á Íslandsmót golfklúbba í meistaraflokki karla og kvenna, en þetta var í fyrsta sinn sem GÞ sendir kvennalið.
Rúmlega fjörutíu iðkendur úr 2. til 10. bekk tóku þátt í skipulögðum æfingum í sumar.
Metþátttaka var í meistaramótinu og tvö GSÍ-mót voru haldin. Þar á meðal var Íslandsmót unglinga.
Á fimmta tug tók þátt í vikulegu kvennagolfi á miðvikudögum og lítur kvennanefnd björtum augum til framtíðar.
Á velli var áhersla lögð á aukna áburðargjöf á brautum og endurnýjun tækjakosts með róbotavæðingu sláttar. Innleiddur var heill floti af Husqvarna-slátturóbotum frá MHG-verslun. Gerð hafa verið fyrstu drög að verkefnalista vallarsvæðis og er hann birtur hér til samráðs.
Golfklúbbur Þorlákshafnar nýtur fulltingis margra aðila og er þar stuðningur Sveitarfélagsins Ölfuss í algerum sérflokki.
Framlög þess gegna lykilhlutverki í áframhaldandi uppbyggingu golfíþróttarinnar á svæðinu, vallarins og klúbbsins.
Unnið var formlega með allnokkrum fyrirtækjum á árinu, en auk þeirra sýndu fjölmörg fyrirtæki klúbbnum velvilja með sérstaklega góðum kjörum og þjónustu. Við erum öllum þessum aðilum þakklát.
Sextán manns unnu launað starf á árinu, auk fjölmargra sjálfboðaliða.
Árgjöld hækka aðeins lítillega í takt við verðlagsbreytingar, samkvæmt tillögu stjórnar að gjaldskrá 2026. Árgjald í GÞ verður áfram með því lægsta sem gerist og endurspeglar áherslu á að golfíþróttin verði áfram aðgengileg sem flestum.
Lögð verður aukin áhersla á ýmis fríðindi með fullri aðild. Má þar nefna lengri bókunarfyrirvara rástíma og sérkjör í samstarfi við fyrirtæki.