Glaðbeittur hópur ungmenna á golfmóti og lokahófi 21. ágúst.
Æfinga- og námskeiðatímabilið 2025 hófst 6. maí og stóð til 25. ágúst. Áætlað var að vera með þrískiptan hóp 2. og 3. bekk saman, 4. - 6. bekk saman og 7. - 10. bekk. Fjöldinn í miðjuhópnum var 22 og því ákveðið að tvískipta honum. Þjálfað var því í fjórum hópum og var skiptingin eftirfarandi:
2. - 3. bekkur: 11
4. - 6. bekkur: 22 (tvískipt)
7. - 10. bekkur: 8
Ákveðið var að hækka lágmarksaldur úr 1. í 2. bekk þar sem erfitt er að taka á móti öllum þessum fjölda og hugmyndin er að endurskipuleggja golfkennsluna hjá yngstu iðkendum og mögulega brjóta upp í nokkur tímabil með pásum á milli.
Verðlaunahafar á lokamótinu 21. ágúst.
Æfingar voru að mestu á mánudögum og miðvikudögum (16 skipti á hvern hóp) í klukkutíma í senn. Elsti hópurinn æfði í 90 mínútur. Æfingarnar fóru fram bæði á æfingasvæði golfklúbbsins sem og á vellinum sjálfum. Að auki voru nokkrar spilæfingar á vellinum hjá öllum hópum og nokkuð margar fyrir elsta hópinn. Á síðustu æfingu héldum við lokahóf þar sem spilað var golf á vellinum og grillaðar pylsur fyrir iðkendur og foreldra.
Stefnt var að því að endurvekja Suðurlandsmótaröðina í golfi milli Golfklúbbs Þorlákshafnar, Hveragerðis og Selfoss en því miður féll það verkefni niður þetta árið.
Heildarfjöldi iðkenda var 41.
Þjálfari var Ingvar Jónsson, PGA golfkennari, og aðstoðarþjálfari í yngri flokkum (2. - 6. bekk) var Freyja Ósk Ásgeirsdóttir.