Frá kynningu á golfíþróttinni og klúbbnum fyrir konur á Heima Bistro 2. apríl.
Haldin var kynning á golfíþróttinni og golfklúbbnum fyrir konur á Heima Bistro 2. apríl. Kynningin var vel sótt og ákváðu nokkrar konur að spreyta sig í góðum hópi, sem lék saman reglulega á miðvikudögum milli kl. 18 og 19. Alls spiluðu 42 konur á miðvikudögum og eru þær flestar, ef ekki allar, komnar með aðild að klúbbnum.
Margar byrjuðu tímabilið á námskeiði hjá Ingvar Jónssyni golfkennara, bæði byrjendur og lengra komnar.
Fyrsti hringur vorsins var spilaður 9. apríl og lokahóf var haldið 19. september, sem hófst með golfkeppni að hætti Solheim Cup og lauk með gæðastund á Heima Bistro.
Hópurinn fór tvisvar í skipulagðar heimsóknir á aðra velli. Fyrst var spilað og borðað í Dalbúa og því næst á Vatnsleysuströnd, með mat í Grindavík á eftir.
Kvennanefnd telur að aldrei hafi fleiri konur tekið þátt í Meistaramótinu og fagnar því jafnframt að klúbburinn hafi í fyrsta sinn sent kvennalið í keppni á Íslandsmóti golfklúbba.
Sóknarfæri eru í nýliðun kvenna á næstu árum og má búast við að áformaður bættur aðbúnaður og þjónusta á vellinum muni hafa þar eitthvað að segja.