Lög og reglur

Lög og reglur


1.gr. - Heiti og markmið

 

Félagið heitir Golfklúbbur Þorlákshafnar  (GÞ).  Aðsetur þess er í Þorlákshöfn. 

Félagið er aðili að Héraðssambandinu Skarphéðni  (HSK), Golfsambandi Íslands  (GSÍ) og Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) og því háð lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.  

 

Markmið félagsins er að skapa meðlimum sínum aðstöðu til að iðka golf og vinna að kynningu og útbreiðslu golfíþróttarinnar.

 

Félagið rekur golfvöll með tilheyrandi mannvirkjum og gengst fyrir golfæfingum og golfmótum ásamt annarri félagsstarfsemi sem tengist íþróttinni.

 

 

2.gr. - Félagsmenn

 

Félagið er opið öllum þeim sem starfa vilja innan vébanda þess í samræmi við gildandi lög og reglur þess.  Stjórn er heimilt, að synja umsókn um félagsaðild eða víkja félaga úr félaginu, enda sé ákvörðunin rökstudd hverju sinni. Gerðarþoli getur þó skotið máli sínu til aðalfundar, sem úrskurðar þá endanlega í máli hans. Þó þarf 2/3 fundarmanna til að fella ákvörðun stjórnar.

 

 

3.gr. - Aðalfundur

 

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum félagsins.  Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. febrúar ár hvert fyrir liðið ár og skal boða til hans með rafpósti til félagsmanna og rafboðum á vefsvæði félagsins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn í síðasta lagi viku fyrir aðalfund og kynntar þá félagsmönnum. Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað..

 

 

4.gr. - Dagskrá aðalfundar

 

1.      Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2.  Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á vegum félagsins.

3.  Kynning á ársreikningi félagsins.

4.  Umræður um skýrslu formanns og ársreikning sem síðan skal borinn upp til samþykktar.

5.  Lagabreytingar.

6.  Kosning stjórnar og skoðunarmanna.

7.  Tilnefning og kosning nefndarformanna

8.  Ákveðið árgjald og önnur gjöld fyrir næsta starfsár.

9.  Önnur mál.

 

 

5.gr. - Fundarsköp aðalfundar

 

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum.  Þó þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breyta lögum félagsins.  Atkvæðisrétt hafa allir félagar klúbbsins sem náð hafa 16 ára aldri. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar félagsmönnum með aðalfundarboði til þess að heimilt sé að afgreiða þær á aðalfundi.

Stjórn er heimilt að leggja til boðunar framhaldsaðalfundar sé talin þörf á slíku. Tillögu um slíkt þarf að bera fram og rökstyðja í upphafði aðalfundar. þá þarf samþykki 2/3 huta atkvæða fullgildra fundarmanna eldri en 16 ára til að samþykkja slíkan fund. Framhaldsaðalfundur skal fara fram eigi síðar en í aprílmánuði næstkomandi

 

6.gr. - Félagsfundir

 

Stjórn félagsins boðar til almennra félagsfunda þegar þurfa þykir eða ef minnst 20 % fullgildir félagsmenn óska þess skriflega.  Skylt er að boða til félagsfundar þegar fyrir liggur að taka meiriháttar ákvarðanir sem varða framtíð félagsins og meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar þess. Boða skal til slíks fundar með sama fyrirkomulagi eins og um aðalfund væri að ræða og efni fundarins skal kynnt í fundarboði.

Á félagsfundum ræður afl atkvæða, nema um meiriháttar fjárskuldbindingar, en þá þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða fullgildra fundarmanna eldri en 16 ára.

 

 

7.gr. - Stjórn klúbbsins

 

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs. Fjórir eru kosnir til tveggja ára í senn, tveir í hvert sinn. Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félags og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila. Á aðalfundi skal jafnframt kjósa tvo varamenn í stjórn til eins árs og tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs. Í forföllum aðalmanna skulu varamenn kallaðir til í þeirri röð sem þeir voru tilnefndir við kjör eða kosnir. Varamenn mega sitja alla stjórnarfundi í félaginu og hafa þar málsfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þeir aðeins í forföllum aðalmanns. Stjórnarmenn og varamenn má endurkjósa.

 

Stjórnin ákveður sjálf starfstilhögun sína. Hún getur ráðið sér launaða aðstoð sem greiðist úr félagssjóði en stjórnarstörf eru ólaunuð.

Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér störfum þannig að einn skal vera varaformaður og staðgengill formanns, einn ritari, einn gjaldkeri og einn meðstjórnandi.

Stjórnarfundir skulu haldnir í það minnsta fjórum sinnum á ári. 

Hlutverk stjórnarinnar er að framfylgja stefnumiðum klúbbsins eins og þau koma fyrir í 1. grein laganna. Þó er stjórn heimilt að ráða rekstar-  eða framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri.

 

Á aðalfundi gerir formaður, eftir því sem unnt er, grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi félagsins á

væntanlegu starfsári. Einnig skal kynna fyrirhugaðar kostnaðarsamar nýframkvæmdir.

 

 

8.gr. - Nefndir


Stjórnin skipar í nefndir sem starfa á vegum félagsins og tilnefnir fulltrúa félagsins í nefndir og ráð sem það á aðild að. Tilnefna skal og kjósa nefndarformenn á aðalfundi. Fimm fastar nefndir starfa á vegum klúbbsins, mótanefnd, vallarnefnd, forgjafarnefnd, unglinganefnd og kvennanefnd.  Nefndirnar starfa samkvæmt reglum GSÍ. Stjórnin getur skipað fleiri nefndir til að sinna sérstökum, tímabundnum verkefnum.

 

 

9.gr. - Félagsgjöld

 

Sérhverjum félagsmanni er skylt að greiða félagsgjald til klúbbsins.  Aðalfundur ákveður fjárhæð gjaldsins til eins árs í senn.  Heimilt er að ákveða að jafnframt almennum einstaklingsgjöldum skuli innheimta sérstök hjóna- eða fjölskyldugjöld, unglingagjöld og nýliðagjöld.  Félagsgjöld skal greiða fyrir lok apríl mánaðar ár hvert.  Stjórnin getur sett nánari reglur um innheimtu gjaldanna og viðurlög við greiðslubresti.

 

 

10.gr. - Umgengnisreglur

 

Sérhverjum félaga er skylt að fara eftir þeim reglum sem settar eru um golfleik, umferð og umgengni á golfvelli og í húsakynnum klúbbsins.  Um störf og leik skal farið eftir St. Andrews golfreglum og siðareglum ÍSÍ eins og þær eru á hverjum tíma.  Stjórnin getur látið brot gegn settum reglum varða réttindamissi eða brottrekstri úr klúbbnum ef um ítrekaðar eða miklar sakir er að ræða.

 


11.gr. - Reikningsár

 

Reikningsár klúbbsins er frá 1. janúar til 31. desember.  Reikningar klúbbsins skulu skoðaðir af félagskjörnum skoðunarmönnum og ber að leggja þá fram til samþykktar á aðalfundi.

 

 

12.gr. - Félagsslit

 

Tillaga stjórnar um að félagið hætti störfum skal borin upp á sérstökum félagsfundi.  Til lögmætis slíkrar ákvörðunar þarf helmingur skráðra félaga að vera á fundi og 2/3 hlutar þeirra að greiða tillögunni atkvæði sitt.  Mæti ekki nægilega margir skal boða til annars fundar innan þriggja vikna og er hann þá ályktunarhæfur án tillits til fundarsóknar, sé löglega til hans boðað. Komi til slita á félaginu skulu eignir þess renna til annars íþróttafélags og/eða til góðgerðasamtaka.


Þannig samþykkt með breytingum á aðalfundi félagsins 23. janúar 2018.